Nú liggja fyrir niðurstöður rannsóknar Athletics Integrity Unit um málið. Í þeim er því slegið föstu að lyfjaeftirlitsmaðurinn hafi ruglast á númerakerfi íbúðanna og hafi knúið dyra, á vitlausri íbúð, í klukkustund. Hann virðist ekki hafa tekið eftir skilti, sem var fyrir ofan dyrnar, þar sem stóð hvað væri á bak við þær. Þetta átti sér stað í apríl á síðasta ári.
„Þetta hefði verið fyndið ef afleiðingarnar hefðu ekki verið svo alvarlegar,“
segir í skýrslu Athletics Integrity Unit að því er segir í umfjöllun The Guardian um málið. Það er þó tekið fram til varnar eftirlitsmanninum að númerakerfið í húsinu sé „mjög ruglandi“.
Samkvæmt reglum lyfjaeftirlitsins, Wada, mega íþróttamenn ekki „brjóta“ oftar af sér en þrisvar sinnum á hverjum 12 mánuðum hvað varðar að gefa upp dvalarstað sinn. Ef þeir eru staðnir að því er það álitið sama eðlis og að mæta ekki í lyfjapróf.
Naser sleppur því með skrekkinn hvað þetta tiltekna mál varðar en hún hljóp 400 metrana á þriðja besta tíma sögunnar á síðasta ári. Þegar það gerðist hafði hún misst af tveimur lyfjaprófum. Fyrrgreind atvik í apríl var því þriðja skiptið og hefði hún því átt að fara í keppnisbann og það hefði þá orðið til þess að hún missti af Ólympíuleikunum.
Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að tvennt megi gagnrýna varðandi Naser. Hún hafi búið á stað þar sem enginn dyrasími var og að henni hafi ekki tekist að skrá símanúmer sitt í svokallað World Anti-Doping Agency Athlete kerfi.
„Hún hjálpaði sjálfri sér ekki,“
segir í skýrslunni.
Naser, sem er fædd í Nígeríu en keppir nú fyrir Bahrain, hefur nú verið beðin um að hafa stjórn á því hvar hún dvelur til að „hafa stjórn á eigin örlögum“ eins og segir í skýrslunni.