BBC skýrir frá þessu. Fram kemur að tíu sjúkrahús hafi beðið starfsfólk, sem hefur greinst með veiruna en er einkennalaust, að halda áfram störfum. Philippe Devos, formaður stéttarfélags heilbrigðisstarfsfólks, sagði í samtali við BBC að starfsfólkið eigi engra annarra kosta völ ef koma eigi í veg fyrir að sjúkrahúsin láti algjörlega undan álaginu. Hann játaði einnig að það sé augljós hætta á að starfsfólkið smiti sjúklinga af veirunni.
Kórónuveirufaraldurinn hefur lagst mjög þungt á Belgíu í haust, eins og hann gerði í vor, og er landið meðal þeirra landa sem einna verst hafa farið út úr faraldrinum. 11,5 milljónir búa í landinu en þar hafa 321.000 greinst með veiruna og tæplega 11.000 hafa látist.
Smitum hefur fjölgað svo mikið að hætta er á að sjúkrahús landsins yfirfyllist. Í síðustu viku sagði Frank Vandenbroucke, heilbrigðisráðherra, að smitin væru orðin svo mörg að hætta væri á að „flóðbylgja smita“ skelli á og að yfirvöld ráði ekki við hana.
Í gær sögðu embættismenn að hætta sé á að sjúkrahús landsins yfirfyllst á næstu tveimur vikum. Á hverjum degi, síðustu átta daga, hefur fjöldi innlagðra sjúklinga á gjörgæsludeildum tvöfaldast. Á sunnudag fyrir rúmri viku lágu 757 á gjörgæslu en síðasta sunnudag voru þeir orðnir 4.827.