Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að forsendur endurupptökunnar séu fjárhagslegir hagsmunir Markúsar Sigurbjörnssonar, sem var meðal dómara málsins, en hann tapaði tæpum átta milljónum á falli Glitnis 2008.
Í niðurstöður endurupptökunefndar segir að vegna fjárhagslegs taps Markúsar hafi Magnús haft ástæðu til að draga óhlutdrægni dómstólsins í efa.
Í málinu var Magnúsi og öðrum sakborningum gefið að sök að hafa framið umboðssvik með því að hafa gengið lengra en umboð þeirra til lánveitinga á vegum Glitnis náði með því að heimila lánveitingu til félagsins BK-44. Aðeins einn tölvupóstur tengdi Magnús við málið og var hann svohljóðandi:
„Ég er kominn með samþykki fyrir PM mörkum á BK-44 ehf, kt. 620200- 2120, upp á 4ma. kr. í 6 mánuði.“
Við rannsókn málsins sagði Magnús að hann hafi ekki verið að gefa leyfi fyrir umræddri lánveitingu með tölvupóstinum heldur einungis verið að bera skilaboð á milli um að leyfi hefði verið veitt.
„Það sjónarmið sem býr að baki þessari endurupptöku er einfalt, skjólstæðingur minn er saklaus,“
hefur Fréttablaðið eftir Páli Rúnari M. Kristjánssyni, lögmanni Magnúsar, sem telur einsýnt að dómurinn verði leiðréttur með nýjum dómi og Magnús sýknaður.