Í Kúveit og Doha sniðganga margar verslanir franskar vörur og á samfélagsmiðlum hafa verið birtar myndir af fólki sem fjarlægir franska osta úr hillum verslana. Jórdanska utanríkisráðuneytið hefur gagnrýnt „áframhaldandi birtingar Frakka á skopmyndum af spámanninum Múhameð undir því yfirskyni að þær snúist um tjáningarfrelsi“.
Í Pakistan hefur hörð gagnrýni verið sett fram á Macron. Imran Khan, forsætisráðherra, sakaði Macron um „árás á Íslam“ í gær. Það gerði hann eftir að Macron gagnrýni öfgasinnaða íslamista og varði birtingu skopmynda af spámanninum Múhameð. Á Twitter sagði Khan að Macron ali á sundrungu með orðum sínum.
„Það er óheppilegt að Macron kyndi undir andúð á Íslam með því að ráðast á Íslam í stað þess að ráðast á hryðjuverkamennina sem standa á bak við ofbeldi, hvort sem það eru múslimar, hugmyndafræði nasista eða þeir sem tala fyrir yfirburðum hvíta kynstofnsins,“
Skrifaði hann.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur ítrekað veist að Macron að undanförnu. Á laugardaginn sagði hann að „Macron ætti að fara í geðrannsókn“. Frakkar hafa kallað sendiherra sinn heim frá Tyrklandi. Í tilkynningu frá skrifstofu Macron segir að athugasemdir Erdogan séu óásættanlegar. Reiðiköst og móðganir séu ekki rétta aðferðin.