Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem Claire Steves og Tim Spector hjá King‘s College London gerðu. The Guardian skýrir frá.
Fram kemur að þau hafi greint skráningar 4.812 kórónuveirusmitaðra einstaklinga í sérstakt app. Þátttakendurnir skráðu stöðugt upplýsingar um líðan sína og allir höfðu greinst með kórónuveiruna.
Almennt séð þá voru konur tvisvar sinnum líklegri til að fá einkenni COVID-19 sem vörðu í mánuð eða lengur. Þetta átti þó aðeins við fram að sextugu en þá voru líkur kynjanna á þessu mjög svipaðar. Hærri aldur tengdist einnig auknum líkum á að fólk glímdi við langvarandi COVID-19 veikindi. 22% 70 ára og eldri glímdu við sjúkdóminn í fjórar vikur eða lengur en hjá fólki á aldrinum 18 til 49 ára var hlutfallið 10%.
Konur á aldrinum 50 til 60 ára reyndust átta sinnum líklegri til að glíma við langvarandi einkenni COVID-19 en konur á aldrinum 18 til 30 ára. Á milli kynjanna var mesti munurinn hjá fólki á aldrinum 40 til 50 ára en í þeim aldurshópi voru konur tvisvar sinnum líklegri til að glíma við langvarandi COVID-19 en karlar.
Rannsóknin hefur ekki enn verið ritrýnd.