TV2 skýrir frá þessu. Fram kemur að 272 af þeim 571 sem hafa verið lagðir inn á sjúkrahús með COVID-19 smit síðan í júní séu fæddir utan Noregs. Þetta er byggt á tölum sem norska landlæknisembættið hefur fengið hjá sjúkrahúsum landsins. Þar til í júní var tæplega einn af hverjum þremur innlögðum fæddur utan Noregs. Hlutfallið hefur því hækkað töluvert.
Landlæknisembættið vinnur nú að rannsókn til að reyna að komast að hvað veldur þessu. Line Vold, deildarstjóri, sagði í samtali við TV2 að mikilvægt sé að skilja stöðuna í heild og af hverju sumir hópar hafi farið sérstaklega illa út úr faraldrinum. Þetta geti skilað sér í betri og markvissari sóttvarnaraðgerðum.
Hún sagði að í sumum hópum innflytjenda séu fáir smitaðir en í heildina sé hlutfall innflytjenda meðal smitaðra og innlagðra of hátt. Hvað varðar þá sem hafa látist af völdum COVID-19 þá voru 35 af þeim 277 sem hafa látist fæddir utan Noregs.