The Guardian skýrir frá þessu. Fram kemur að vísindamenn við Kaliforníuháskóla hafi komist að því að 110.000 Kaliforníubúar hafi keypt sér skotvopn vegna heimsfaraldursins. Um 47.000 voru að kaupa sér skotvopn í fyrsta sinn. Kaupendurnir segja að áhyggjur af uppþotum, efnahagslegu hruni og að áhyggjur af að mörg þúsund föngum verði sleppt úr fangelsum hafi valdið því að þeir keyptu skotvopn.
Þetta hefur vakið áhyggjur um að aukin hætta sé á óhöppum þegar svo margir, með litla sem enga reynslu af skotvopnum, kaupa sér skotvopn. Þetta geti aukið líkurnar á meiðslum, sérstaklega þar sem börn og unglingar eru á heimilum.
„Fólk er áhyggjufullt vegna óvissunnar sem tengist kosningunum, mótmælum og COVID. En við verðum að ræða hætturnar sem fylgja því að vera með skotvopn á heimilum. Þú getur keypt skotvopn en það er ekki þar með sagt að þú vitir hvernig á að fara með það og það skiptir miklu máli,“
er haft eftir Brian Malte, framkvæmdastjóra Hope and Heal Fund sem eru samtök sem vinna að forvörnum í tengslum við skotvopn.
Sérfræðingar óttast einnig að aukin skotvopnaeign hafi í för með sér fleiri sjálfsvíg vegna vonleysis, ótta og einangrunar vegna heimsfaraldursins.