CNN skýrir frá þessu. Fram kemur að dómsmálaráðuneytið og samtök mannréttindasamtaka vinni að því að reyna að bera kennsl á börnin og finna foreldra þeirra svo hægt sé að sameina fjölskyldur á nýjan leik, fjölskyldur sem voru aðskildar samkvæmt kröfum ríkisstjórnar Donald Trump.
Alríkisdómstóll fyrirskipaði að fjölskyldurnar skyldu sameinaðar á nýjan leik en á síðasta ári kom fram í opinberri skýrslu að mörg þúsund fjölskyldum til viðbótar gæti hafa verið stíað í sundur án þess að embættismenn hafi viðurkennt það.
Dómstóllinn skipaði „stýrihóp“ sem á að reyna að hafa uppi á fjölskyldunum. Hópurinn hefur reynt að hafa uppi á foreldrum 1.030 barna en hefur ekki tekist að hafa uppi á foreldrum 545 þeirra.
Í dómsskjölunum kemur fram að talið er að um tveir þriðju hlutar foreldranna hafi verið fluttir úr landi án barna sinna. Börnunum hefur verið sleppt úr haldi og eru líklega nær öll enn í Bandaríkjunum.