Brussels Times skýrir frá þessu. Í ljós kom að flest hinna nýju smita tengdust sama lækninum. Hann hafði greinst með smit viku áður. Sjúklingar hans sögðu að hann hefði oft neitað að nota andlitsgrímu eða sett hana vitlaust á.
„Það er óskiljanlegt og algjört hneyksli að heimilislæknir geti verið svo ábyrgðarlaus. Sem læknir verður þú að vera til fyrirmyndar,“
sagði Farah Vansteenbrugge, sérfræðingur í heilbrigðismálum.
Belgía var meðal þeirra Evrópuríkja sem fóru verst út úr fyrstu bylgju heimsfaraldursins í vor og mál læknisins kemur upp á sama tíma og önnur bylgja faraldursins er skollin á landinu af fullum þunga. 11 milljónir búa í Belgíu og þar hafa 816 smit greinst á hverja 100.000 íbúa síðustu sjö daga. Aðeins í Tékklandi er smithlutfallið hærra.
Frank Vandenbroucke, heilbrigðisráðherra, segir ástandið í höfuðborginni Brussel og í suðurhluta landsins vera „það hættulegasta í Evrópu“. Hann segir að nýsmitum fjölgi svo hratt að hætta sé á að sjúkrahús landsins yfirfyllist. Hann segir að „flóðbylgja“ sé í uppsiglingu og að yfirvöld nái ekki að halda í við hana.
Belgía er í þriðja sæti á heimsvísu hvað varðar andlát af völdum COVID-19 á hverja 100.000 íbúa. Aðeins í Perú og San Marino er hlutfallið hærra.