Allt frá því að undirbúningur mótsins hófst fyrir 10 árum hefur verið rætt um mannréttindabrot þar í landi og þá sérstaklega í tengslum við þær tvær milljónir verkamanna sem voru fluttar til landsins til að vinna við framkvæmdir fyrir mótið. Ráðamenn í Katar hafa ítrekað lofað bót og betrun. Til dæmis samþykkti þing landsins árið 2017 mörg lög sem áttu að tryggja betra vinnuumhverfi og farandverkamanna sem starfa á heimilum hinnar ráðandi stéttar í landinu.
Í nýrri 76 síðna skýrslu frá Amnesty er fjallað um 175.000 manns, aðallega konur, sem starfa á heimilum hinnar ráðandi stéttar landsins. Fyrrnefnd lög náðu til vinnutíma, matar- og kaffitíma, vikulegs frídags og réttar til launa í fríum. En því fer fjarri að þau hafi virkað fyrir alla. Skýrslan er byggð á samtölum við 105 konur sem vinna eða hafa unnið á heimilum hinnar ráðandi stéttar í Katar.
Niðurstaðan er einfaldlega sú að lögin hafi í raun ekki verið innleidd. Í samtölunum við konurnar 105 kom fram að 90 þeirra vinna meira en 14 klukkustundir á dag, 89 vinna alla daga vikunnar. Vinnuveitendur 87 höfðu tekið vegabréfin af þeim og margar höfðu ekki fengið nein laun greidd. Þetta tengist hinu svokallaða Kafala-kerfi sem er í raun ávísun á þrælahald. Stjórnvöld í Katar hafa heitið því að afnema þetta kerfi en það hefur ekki verið gert. Því verður Kafala-kerfið enn við lýði þegar bestu knattspyrnulandslið heims mæta til leiks í Katar 2022.
Einnig kom fram í viðtölum við konurnar að margar hafa verið beittar ofbeldi af hálfu vinnuveitenda sinna, þar á meðal kynferðisofbeldi, og sumar hafa ekki fengið nein laun greidd.