Uppsetning farsímakerfis er hluti af Artemis áætlun NASA sem snýr að því að senda konu og karl til tunglsins fyrir 2024. Þar eiga geimfararnir að gera ýmsar tilraunir og rannsóknir sem NASA vonast til að komi að gagni við undirbúning fyrstu mönnuðu geimferðarinnar til Mars.
Samkvæmt frétt The Guardian þá verður búnaði frá Nokia komið fyrir á yfirborði tunglsins með aðstoð farartækis sem Intuitive Machines mun smíða síðla árs 2022. Farsímakerfið mun tryggja að hægt verður að halda uppi nauðsynlegum fjarskiptum, fjarstýra tunglbílum, virkni leiðsögutækja og streymi hágæða myndbanda. Nokia segir að hægt verði að uppfæra 4G kerfið síðar og gera það að 5G kerfi.