Maðurinn hét William Ernest Thompson og væri 85 ára ef hann væri enn á lífi. Það var ættingi hans sem hjálpaði lögreglunni að bera kennsl á líkið en sá hafði lesið um málið á heimasíðu lögreglunnar fyrir tveimur árum að því er segir í tilkynningu frá Escambia County Sheriff‘s Office. CNN skýrir frá þessu.
Fram kemur að Thompson hafi síðast rætt við móður sína tæpum tveimur árum áður en lík hans fannst.
Ættingi hans sá að lögreglan lýsti beltissylgju Thompson með þeim orðum að á hana hafi verið grafið „W.T“. Hann fór þá að gruna að þetta gæti verið beltissylgja Thompson og það styrkti grun hans um það að síðast var vitað um ferðir hans í Pensacola, nærri þeim stað þar sem líkið fannst. Niðurstaða DNA-rannsóknar staðfesti að líkið var af Thompson.
Lögreglan segir að málið sé enn eitt dæmið um að leitinni að réttlæti ljúki aldrei en vitað er að Thompson var myrtur. Chip Simmons, talsmaður lögreglunnar, sagði að það að vita nú deili á Thompson færi lögregluna einu skrefi nær því að leysa málið og veiti fjölskyldu hans vonandi frið. Ekki er vitað hvenær Thompson lést eða hversu gamall hann var þá en lögreglan telur að hann hafi verið myrtur allt frá nokkrum árum áður en lík hans fannst þar til 18 mánuðum áður.