Trump ræddi við nokkra starfsmenn kosningaframboðs síns í síma og hlustuðu nokkrir blaðamenn á símtalið að sögn The New York Times. Í því sagði Trump meðal annars að fólk væri þreytt á COVID.
„Ég er með fjölmennustu kosningafundina sem ég hef nokkru sinni haft. Við erum með COVID. Fólk segir: „Það skiptir engu máli. Látið okkur bara í friði.“ Það er þreytt á þessu,“
sagði Trump og bætti við:
„Fólk er þreytt á að hlusta á Fauci og bjánana, bjánana sem höfðu rangt fyrir sér.“
Meirihluti Bandaríkjamanna telur Fauci vera einn trúverðugasta aðilann þegar kemur að upplýsingagjöf í heimsfaraldrinum.
Í upphafi hans var það oft Fauci sem skýrði frá fyrirliggjandi upplýsingum og veitti þjóðinni ráð. Þetta féll Trump illa því Fauci vildi halda sig við staðreyndir og ekki segja það sem Trump og hans fólk vildi að hann segði. Af þeim sökum var honum ýtt til hliðar og Hvíta húsið tók þessa upplýsingagjöf yfir.
„Í hvert sinn sem hann er í sjónvarpinu er það eins og sprenging, en það verður enn stærri sprenging ef maður rekur hann. Maðurinn er stórslys,“
sagði Trump í símtalinu.