Vaxart tilkynnti í síðustu viku um rannsókn yfirvalda á fyrirtækinu og að því hefði verið stefnt fyrir dóm. Ástæðan er að í júní sendi fyrirtækið frá sér fréttatilkynningu þar sem kom fram að bóluefni fyrirtækisins, gegn COVID-19, hafi verið valið til þátttöku í Operation Warp Speed. Í kjölfarið hækkaði verð hlutabréfa í fyrirtækinu úr um 3 dollurum í 17. Vogunarsjóðurinn Armistice Capital, sem stýrði fyrirtækinu að hluta, seldi þá hlutabréf og hagnaðist um 200 milljónir dollara. CNN skýrir frá þessu.
Nokkrum vikum áður hafði Vaxart veitt heimild til breytinga á samkomulagi við Armistice sem gerði vogunarsjóðnum kleift að selja nær öll hlutabréf sín ef verð þeirra myndi snarhækka.
Í júlí sögðu heilbrigðisyfirvöld New York Times að þau hefðu ekki gert samning við Vaxart eða átt í samningaviðræðum við fyrirtækið. Sögðu yfirvöld að fyrirtækið hefði átt mjög takmarkaða aðkomu að Operation Warp Speed.