Rúmlega 7,3 milljónir smita hafa verið staðfest í landinu sem er á góðri leið með að fara fram úr Bandaríkjunum hvað varðar fjölda staðfestra smita. En staðan á Indlandi er samt sem áður mun betri en í Bandaríkjunum. Miklu fleiri hafa jafnað sig af COVID-19 þar, eða um 6,5 milljónir, og dánartíðnin er mun lægri eða um 1,5% af þeim sem hafa greinst með veiruna.
Ekki er hægt að segja með neinni vissu af hverju dánartíðnin er svo lág og væntanlega verður ekki hægt að skera úr um það fyrr en í rannsóknum framtíðarinnar. En nokkrar kenningar eru á lofti. Ein snýst um að meðalaldur þjóðarinnar eigi hlut að máli en hann er aðeins 28,4 ár og er einn sá lægsti í heimi. Til samanburðar má nefna að í Frakklandi er meðalaldurinn 42,3 ár og þar er dánartíðnin 4,7%.
Önnur tilgáta er að tilvist annarra smitsjúkdóma styrki ónæmiskerfi fólks. Í því samhengi hefur beinbrunasótt verið nefnd til sögunnar og að hún veiti hugsanlega vörn gegn kórónuveirunni. Það hefur stutt við þessa kenningu að í Singapore hafa yfirvöld skráð mesta fjölda beinbrunasóttartilfella í sögunni í ár. Þar hafa um 57.000 smitast af COVID-19 og 28 látist. 31.000 hafa greinst með beinbrunasótt og 28 hafa látist af hennar völdum.