TV2 segir að smit hafi komið upp á 41 búi á Norður-Jótlandi og grunur sé um smit í 20 búum til viðbótar. Á fréttamannafundi í gær sagði Mogens Jensen, matvælaráðherra, að ljóst væri að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til fram að þessu dugi ekki og því verði að herða þær enn frekar.
Það er mat ríkisstjórnarinnar að aflífa þurfi minka á um 100 búum og að þegar upp verður staðið verði um rúmlega eina milljón dýra að ræða.
Smitin í minkum eru óvenjulega smitandi, bæði hvað varðar fólk og dýr, að sögn heilbrigðisyfirvalda og af þeim sökum á að aflífa alla minka í búum sem eru í innan við 8 km radíus frá búum þar sem smit eru staðfest eða grunur leikur á að smit hafi komið upp.
Ríkið mun greiða bændum bætur vegna þess fjárhagslega tjóns sem þeir verða fyrir vegna þessa.