TV4 skýrði frá þessu um helgina. Í frétt sjónvarpsstöðvarinnar kemur fram að liðsmenn glæpagengjanna hafi haldið uppi eftirliti í hverfinu og haft í hótunum við fólk ef það virti ekki útgöngubannið.
Málið hófst þann 25. ágúst þegar lögreglumenn, sem voru við eftirlit í hverfinu, sáu að það voru óvenjulega fáir á ferð utandyra í hverfinu sem alla jafna er ansi líflegt. Þegar þeir könnuðu málið betur fékk lögreglan upplýsingar um að glæpagengi hefðu sett útgöngubann í hverfinu.
„Meðlimir í glæpagengjum í hverfinu höfðu tilkynnt íbúunum að þeir mættu ekki yfirgefa heimili sín eftir klukkan 18. Þessi tilkynning breiddist hratt út í hverfinu,“
er haft eftir Therese Rosengren, lögreglustjóra í Rinkeby-Tensta.
Íbúunum var einnig gerð grein fyrir hvaða afleiðingar það hefði að brjóta gegn banninu.
„Þá áttu þeir á hættu að verða beittir grófu ofbeldi,“
sagði Rosengren einnig.
Rinkeby-Tensta hverfið hefur lengi verið í kastljósi fjölmiðla vegna grófs ofbeldis sem glæpagengin hafa beitt þar. Átök þeirra hafa teygt sig út fyrir hverfið og má til dæmis nefna að sumarið 2019 teygðu átökin sig til Herlev í Danmörku þar sem tveir ungir meðlimir eins glæpagengis voru skotnir til bana af meðlimum í öðru glæpagengi úr hverfinu.
Sænska lögreglan segir að sex þekkt glæpagengi starfi í hverfinu sem er um 16 km frá Stokkhólmi.
Ungir meðlimir þeirra, á aldrinum 15 til 25 ára, halda hverfinu í járngreipum og komið hefur til blóðugra átaka og morða á götu úti. Ástæðan er oft persónuleg óvild, hefnd eða barátta um yfirráð á fíkniefnamarkaðinum að mati lögreglunnar. Lögreglan segir að dæmi séu um að börn allt niður í 12 ára séu meðlimir í glæpagengjunum. Lögreglan upplifir að íbúar í hverfinu eru hræddir við vinna með lögreglunni, óttast afleiðingarnar. Meðlimir glæpagengjanna eru aðallega ungt fólk af innflytjendaættum.