Xi er undir ákveðnum þrýstingi þessar vikurnar vegna deilna við önnur ríki. Þar er til dæmis um minni deilur við önnur ríki í Asíu að ræða en einnig deilur við kjarnorkuveldin Indland og Bandaríkin. Íhlutun kínversku kommúnistastjórnarinnar í málefni Hong Kong hefur vakið sérstaklega mikla reiði í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn eru einnig ósáttir við stefnu kommúnistastjórnarinnar gagnvart Taívan sem Kína vill gjarnan innlima í landið.
„Notið alla orku ykkar og einbeitingu til að undirbúa ykkur undir stríð. Verið algjörlega trúir og traustir,“
sagði Xi við hermennina að sögn CNN sem segir að Xi hafi margoft hótað að beita hervaldi til að gera út af við drauminn um sjálfstætt Taívan. Bandaríkin hafa lofað að senda vopn til Taívan en það fer illa í kínverska ráðamenn sem hafa gagnrýnt þetta opinberlega. Til að sýna óánægju sína sendu Kínverjar 40 orustuþotur að Taívan á mánudaginn.