Rannsóknin hefur verið birt á Medrxiv. Það var Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO sem samhæfði rannsóknina sem er sú stærsta sinnar tegundar sem gerð hefur verið.
Á sjúkrahúsum víða um heim fengu 2.750 COVID-19 sjúklingar Remdesivir. Jafn stór samanburðarhópur tók síðan þátt í tilrauninni. Niðurstöðurnar sýna að það var ekki umtalsverður munur á hversu margir lifðu af í hópunum.
Þegar sjúklingunum var skipt upp í undirhópa benda niðurstöðurnar til að meiri líkur séu á að þeir veikustu deyi ef þeir fá Remdesivir en munurinn er þó það lítill að um tilviljun gæti verið að ræða.
Niðurstöðurnar benda einnig til að þeir minnst veiku eigi meiri möguleika á að lifa af ef þeir fá Remdesivir en það gæti einnig verið tilviljun.
Í júlí voru birtar niðurstöður rannsóknar sem bentu til að Remdesivir gæti haft ákveðin áhrif. Endurskoðuð útgáfa af þeirri rannsókn var birt 8. október og var niðurstaðan sú sama. Niðurstöðurnar sýndu að 11,4% þeirra sem fengu Remdesivir létust innan mánaðar en 15,2% þeirra sem voru í samanburðarhópnum. Munurinn var svo lítill að hann benti til að ef tilraunin væri endurtekin með fleiri sjúklingum myndi þessi munur hverfa.
Það var einmitt það sem gerðist í nýju stóru rannsókninni.