Washington Post segir að í tæpan mánuð hafi þróunin í Bandaríkjunum verið á verri veginn. Frá því á laugardag hafi fjöldi smita náð nýjum hæðum í rúmlega 20 ríkjum miðað við meðaltal staðfestra smita í viku hverri.
Blaðið segir þetta mikið áhyggjuefni því þetta sé undanfari þess sem koma skal í vetur þegar veiran muni dreifa sér enn frekar þegar kalt verður í veðri og fólk er meira innanhúss. Þá muni hrekkjavökuhátíðin, þakkargjörðarhátíðin og jólin einnig hafa neikvæð áhrif.
Veiran hefur verið á uppleið í Miðvesturríkjunum að undanförnu eftir að hafa látið mest að sér kveða í strandríkjunum og í borgum landsins. Ekki er vitað af hverju smitum fer fjölgandi, hvort það eru vetraráhrif eða vegna enduropnunar skóla og fyrirtækja eða þá að fólk sé orðið mjög þreytt á ástandinu og hafi slakað á persónulegum vörnum sínum.
Í 40 ríkjum er fjöldi smita meiri en í síðustu viku. Þá hefur sjúkrahúsinnlögnum vegna COVID-19 fjölgað í mörgum ríkjum að undanförnu og er óttast að í kjölfarið muni dánartölur fara hækkandi.
Að minnsta kosti 215.000 manns hafa látist af völdum veirunnar í Bandaríkjunum. Reiknilíkan frá Institute for Health Metrics and Evaluation hjá University of Washington sýnir að allt að 394.000 geti verið látnir af völdum veirunnar í lok janúar.