COVID-19 getur eins og margir aðrir sjúkdómar haft varanlegar afleiðingar í för með sér. Sumir þeirra sem hafa sýkst finna fyrir einkennum vikum og jafnvel mánuðum eftir að þeir sýktust, það á einnig við um marga sem veiktust ekki svo mikið að leggja þyrfti þá inn á sjúkrahús.
Rannsóknir á sjúklingum hafa leitt í ljós að sumir hafa orðið fyrir tjóni á hjarta, lungum og nýrum og einnig hafa komið fram upplýsingar um varanleg áhrif veirunnar á heilann en sumir hafa skýrt frá mikilli þreytu eftir áreynslu og segjast einnig finna fyrir heilaþoku sem er einkenni síþreytu.
Samkvæmt umfjöllunum USA Today og Bloomberg þá hefur verið tilkynnt um tæplega 100 mismunandi langtíma áhrif COVID-19 á heilsu fólks. Sum þessara einkenna eru töluvert frábrugðin hefðbundnum einkennum COVID-19 smits. Hér á eftir er yfirlit yfir helstu einkenni COVID-19 smits samkvæmt samantektum fyrrgreindra miðla en þær eru byggðar á upplýsingum frá vísindamönnum og sjúklingum.