CNN segir að breytingin taki gildi þegar forseti landsins, Abdul Hamid, undirritar hana en það er aðeins talið vera formsatriði.
Anisul Huq, dómsmálaráðherra, sagði í samtali við innlendu fréttastofuna BSS að lögin muni verða fyrirbyggjandi og að ríkisstjórnin muni gera allt sem í hennar valdi stendur til að sjá til þess að meðferðum nauðgunarmála verði hraðað hjá dómstólum.
Ríkisstjórnin hafði verið undir miklum þrýstingi um að gera meira til að koma í veg fyrir kynferðisafbrot í kjölfar dreifingar myndbanda af hópi karla sem réðst á konur og beitti þær kynferðislegu ofbeldi.
Á fyrstu níu mánuðum ársins var að minnsta kosti 975 konum og stúlkum nauðgað í landinu að sögn Ain o Salish Kendra mannréttindasamtakanna. Human Rights Watch segja að nýju lögin verði væntanlega ekki mikið notuð því mjög fáir séu sakfelldir fyrir nauðganir í landinu og fórnarlömbin þurfi að takast á við erfitt og flókið ferli til að kæra kynferðisbrot.