Minkarnir eru smitaðir af sérstöku afbrigði veirunnar en sama afbrigði hefur fundist í fólki sem býr nærri búunum. Danska ríkisútvarpið hefur þetta eftir Anders Fomsgaard hjá dönsku bóluefnastofnuninni.
„Við höfum áhyggjur af að afbrigði af stökkbreyttu veirunni, sem er í dýrunum, muni berast í fólk og vera ónæmt fyrir bóluefnum sem eru í þróun,“
er haft eftir Fomsgaard.
„Það er bóluefnið sem á að bjarga okkur og koma upp hjarðónæmi svo við getum snúið aftur til hefðbundinna lífshátta,“
sagði hann einnig.
Fyrstu smitin í minkum í Danmörku uppgötvuðust í júní í minkabúi á Norður-Jótlandi. Sýni voru tekin úr dýrunum eftir að tveir starfsmenn í búinu smituðust af veirunni. Veiran hefur síðan breiðst hratt út til fleiri minkabúa. Í heildina hafa smit nú greinst í 80 minkabúum á Norður- og Mið-Jótlandi.
Yfirvöld hafa ákveðið að lóga öllum dýrum í þessum búum sem og smitlausum búum sem eru innan 7,8 km radíusar frá búum þar sem smit hafa komið upp.
Minkabændur fá fjárhagslega aðstoð frá ríkinu ef dýrum þeirra er lógað. Hvergi í heiminum er minkaeldi meira en í Danmörku og veltir greinin sem nemur tugum milljarða íslenskra króna á ári.