Politiken skýrir frá þessu. Fram kemur að danska smitsjúkdómastofnunin taki saman tölur um andlát vikulega og beri saman við tölur síðustu fimm ára. Sú samantekt sýnir að fyrstu 30 vikur ársins 2020 var dánartíðnin sú lægsta síðan 2015. Hún var raunar lægri en vænta má miðað við íbúafjölda og samsetningu íbúanna. Stofnunin segir að þær ráðstafanir, sem gripið hefur verið til vegna heimsfaraldursins, vinni einnig gegn inflúensu og fleiri sjúkdómum og því hafi færri látist.
Joachim Hoffmann-Petersen, yfirlæknir, sagðist setja spurningarmerki við aðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldursins.
„Núna er erfitt að sjá hvert langtímamarkið ríkisstjórnarinnar er. Vilja menn hafa eins lága dánartíðni og hægt er og eins fáar innlagnir á sjúkrahús og hægt er óháð hvað það kostar? Það er kjánalegt og dýrt. Vilja menn gera út af við kórónuveiruna? Það er ómögulegt. Vilja menn tefja tímann þar til við fáum bóluefni? Það passar vel við að við sættum okkur við aðeins fleiri smit og aðeins færri takmarkanir. Á móti verður að vinna mikið við smitrakningu og setja nægileg úrræði í það,“
hefur Politiken eftir honum.