Þetta kom fram nýlega þegar Neil Basu, yfirmaður and-hryðjuverkadeildar Lundúnalögreglunnar, kom fyrir réttarfarsnefnd þingsins. Hann sagði að gera þurfi eitthvað í þessu.
Fram kom að börnin heillast af öfgahægrimönnum, kvenhöturum og öfgasinnuðum íslamistum sem beiti einföldum aðferðum til að lokka börnin inn í ofbeldisheim þegar þau sitja við tölvur sínar.
Eins og staðan er í dag beinast flestir aðgerðir hryðjuverkalögreglunnar að öfgasinnuðum íslamistum en málum sem tengjast öfgahægrimönnum fer fjölgandi og voru þau um 10% af málafjöldanum á fyrri helmingi ársins.
„Við sjáum sérstaklega aukningu hjá öfgahægrimönnum og aukningu hjá ungu fólki sem, allt niður í 13 ára aldur, ræðir að það sé tilbúið til hryðjuverka,“
sagði Basu.
Það gerir starf lögreglunnar erfiðara að börnin festa sig ekki endilega við ákveðna hugmyndafræði, pólitík eða trú heldur er það ofbeldið sjálft sem dregur þau að. Til dæmis eru dæmi um ungmenni sem aðhyllast íslamisma en um leið öfgahægriskoðanir og kvenhatur. Þau eiga það sameiginlegt að það er ofbeldið sem laðar þau að sér.