Samkvæmt umfjöllun Aftonbladet þá var maðurinn dæmdur í fangelsi í lok síðasta árs. Hann átti að mæta til afplánunar þann 9. maí en að kvöldi 6. maí myrti hann mann með því að stinga hann margoft með 30 cm löngum brauðhníf.
Dómur var kveðinn upp í málinu í gær. Maðurinn er þekktur síbrotamaður og var í lok desember dæmdur í fangelsi fyrir ölvunarakstur, ógætilegan akstur og tvö fíkniefnabrot. Hann hafði margoft áður hlotið dóma fyrir svipuð brot.
Sambýliskona mannsins sagði í yfirheyrslum að hann hafi verið stressaður yfir að þurfa að fara aftur í fangelsi. Fyrir dómi sagði maðurinn að hann hefði drukkið sérstaklega mikið af bjór að kvöldi 6. maí af því að hann var á leið í fangelsi.
Þegar hann og vinur hans komu í íbúðina sem hann bjó í með sambýliskonu sinni um klukkan 22 var hún léttklædd í félagsskap með karlmanni. Við skýrslutökur sögðu mörg vitni að maðurinn væri mjög afbrýðisamur og taldi dómurinn að afbrýðissemin hafi verið ástæðan fyrir því sem síðan gerðist.
Maðurinn réðst á hinn manninn með 30 cm löngum brauðhníf og veitti honum svo alvarlega áverka að ekki reyndist unnt að bjarga lífi hans. Fórnarlambið náði að segja lögreglunni nafn árásarmannsins rétt áður en það tók síðasta andardráttinn.