CNN skýrir frá þessu. Haft er eftir Jonathan Wilkinson, umhverfisráðherra, að plastmengun ógni náttúrunni. Það fylli ár og vötn og höfin og drepi dýrin sem þar búa.
Justin Trudeau, forsætisráðherra, kynnti áætlunina um plastlaust Kanada 2030 á síðasta ári. Þá sagði hann að þetta væri „vandamál sem við höfum ekki efni á að hunsa“.
Wilkinson sagði að einnota plast væri þannig úr garði gert að það skaði umhverfið, það sé dýrt eða erfitt að endurvinna það og til séu aðrir valkostir. Af þeim sökum verði það bannað.
Stjórnvöld segja að Kanadamenn hendi rúmlega 3 milljónum tonna af plasti árlega. Aðeins 9% af því fer til endurvinnslu. Restin fer í landfyllingar eða út í umhverfið að sögn Wilkinson.