Kennslustofnun landsins sakar kennarann um að hafa brotið gegn Basic Law, sem er lítil stjórnarskrá Hong Kong, með því að breiða út boðskap um sjálfstæði Hong Kong.
„Til að vernda hagsmuni nemenda og vernda fagmennsku kennara og traust almennings á kennurum hefur kennslustofnunin ákveðið að svipta kennarann kennsluréttindum,“
segir í tilkynningu frá kennslustofnuninni sem birtist í South China Morning Post.
The Guardian segir að kennarinn hafi sýnt bekk myndband þar sem lýðræðissinni kemur fram og hafi síðan spurt nemendurna hvað tjáningarfrelsi væri og „samkvæmt því sem kemur fram í myndbandinu, hver eru rökin sem tala fyrir sjálfstæði Hong Kong?“.
Kennslustofnunin segir að nokkrir kennarar hafi fengið aðvörun vegna málsins og að hún muni vinna að því að finna þá kennara sem brjóti gegn góðum og fagmannlegum kennsluháttum.
Frá því í júlí 2019, þegar mótmælin í Hong Kong hófust, þar til í ágúst á þessu ári bárust kennslunefndinni 247 kvartanir vegna tengsla kennara við mótmælin. Rannsókn er lokið á 204 málum og hafa 33 kennarar fengið tiltal eða aðvörunarbréf. Kennslustofnunin útilokar ekki að svipta þá kennsluréttindum sem hafa hugsanlega gerst sekir um alvarleg brot.
Samkvæmt nýjum öryggislögum, sem stjórnvöld í Peking settu fyrir Hong Kong, er nú ólöglegt að tala fyrir sjálfstæði Hong Kong.