Þetta er í fyrsta sinn í sex ár sem vatnsbólin eru full og er óhætt að segja að breytingin sé mikil frá því sem var fyrir tveimur árum. CNN skýrir frá þessu.
Fyrir tveimur árum gripu borgaryfirvöld til harðra aðgerða vegna stöðunnar. Hverjum borgarbúa voru skammtaðir 50 lítrar á dag sem áttu að duga í matseld, þvotta, til drykkjar og til að baðast. Ef vatnsbólin hefðu tæmst hefði skammturinn verið minnkaður niður í 25 lítra á dag.
50 lítrar á dag eru ekki mikið og miklu minna en íbúar stórborga nota að jafnaði daglega. En borgarbúar tóku höndum saman um að spara vatn eins og hægt væri. Með samstilltu átaki hefur tekist að koma stöðu vatnsbólanna í gott horf en áhersla er lögð á að borgarbúar verði áfram að vera meðvitaðir um að ekki megi bruðla með vatn. En það voru ekki borgarbúar einir sem björguðu málunum því náttúran lagði sitt af mörkum með úrkomu sem var yfir meðallagi síðustu tvo vetur.