The Telegraph skýrir frá þessu.
Sea View Resort er fjögurra stjörnu hótel í Koh Chang sem þykir mikil ferðamannaparadís. Samkvæmt kærunni þá skemmdi Wesley Barnes orðspor hótelsins með umsögn sinni á Tripadvisor. Það þarf að fara varlega í slíkar umsagnir í Taílandi vegna strangrar löggjafar um meiðyrði en mannréttindasamtök hafa oft gagnrýnt löggjöfina.
Það er óhætt að segja að Barnes hafi ekki látið hrósi og lofi rigna yfir hótelið í umsögn sinni. Í umsögn frá í júlí skrifar hann að hann hafi rekist á „óvingjarnlega starfsmenn“ sem „hegði sér eins og þeir vilji enga gesti“. Önnur umsögn hans var fjarlægð því hún stríðir gegn reglum Tripadvisor en í henni sakaði hann hótelið um „nútímaþrælahald“.
Barnes, sem starfar í Taílandi, var handtekinn eftir að kæran var lögð fram og var í haldi í tvo sólarhringa þar til trygging var greidd fyrir lausn hans.
Talsmenn Sea View Resort segja að deilurnar hafi hafist þegar Barnes reyndi að fara með áfengi upp á hótelherbergið sitt en það má ekki samkvæmt hótelreglum. Hann varð að sögn mjög æstur og gerði lítið úr starfsfólki hótelsins.