Samkvæmt frétt The Guardian verður fyrirtækið að færa verðmat eigna sinna niður um 550 milljónir punda en það svarar til um 97 milljarða íslenskra króna. Þetta kom fram þegar fyrirtækið lagði ársreikning sinn fram nýlega.
Reksturinn skilaði 345 milljónum punda í hagnað á síðasta rekstrarári. Eignir The Crown Estate eru nú metnar á 13,4 milljarða punda. Fyrirtækið á stór landsvæði í Englandi, Skotlandi og Wales auk fasteigna í miðborg Lundúna, þar á meðal hina þekktu verslunargötu Regent Street. Þess utan eru persónulegar eignir konungsfjölskyldunnar og Windsor Park.
Fyrirtækið á landgrunnið 22 kílómetra út frá ströndum Bretlands en það tryggir fyrirtækinu miklar tekjur árlega.
Ástæðan fyrir niðurfærslu eignaverðmætisins er aðallega samdráttur í leigutekjum vegna heimsfaraldursins.
Konungsfjölskyldan hefur ekki beinan aðgang að eignum fyrirtækisins og hefur ekkert með daglegan rekstur þess að gera. Fyrirtækið er rekið sem opinbert fyrirtæki sem sér um rekstur eigna konungshirðarinnar. Megnið af hagnaði þess rennur í ríkissjóð sem fékk 3 milljarða punda í arðgreiðslu frá fyrirtækinu á síðasta ári. Fjórðungur hagnaðarins rennur þó til konungsfjölskyldunnar.