Yfirferðin sýnir að 9 af hverjum 10, sem létust af völdum COVID-19 frá mars til og með maí, voru með króníska sjúkdóma. Þetta kemur fram í tölum norsku dánarvottorðaskráarinnar að sögn landlæknisembættisins.
Í öllum tilfellum var það þannig að COVID-19 dró fólkið til dauða en ekki er hægt að segja til um hvaða áhrif aðrir sjúkdómar höfðu að sögn Marianne Sørlie Strøm hjá dánarvottorðaskránni.
Fram kemur að hjarta- og æðasjúkdómar voru algengustu krónísku sjúkdómar fórnarlamba veirunnar. Þar á eftir koma lungnasjúkdómar.
Samantekt landlæknisembættisins sýnir einnig að níu af hverjum tíu, sem létust, voru eldri en sjötíu ára. Einnig kemur fram í samantektinni að þrátt fyrir mörg andlát af völdum COVID-19 hafi dánartíðnin í heild í landinu verið næstum því hin sama í mars, apríl og maí og hún var í sömu mánuðum á síðasta ári.