Það var Konrad Adenauser-Stiftung sem gerði könnunina. Í ljós kom að 11% eru vissir um að „til séu leynileg öfl sem stýra heiminum“ en 19% telja það líklegt. Um fjórðungur sagði að „líklega“ væri það rangt. Aðeins 35% höfnuðu þessari kenningu algjörlega.
En þegar spurt var hvaða leynilegu öfl þetta séu var minna um svör. Sjötti hver hafði ekkert svar við því. Þeir sem höfðu svar við þessu bentu flestir á banka eða stórkapítalista, bandarískar, rússneskar eða ísraelskar leyniþjónustur. Sumir sögðu bara auðugar fjölskyldur en aðrir nefndu Rotschild- og Rockefeller-fjölskyldurnar. Mörg önnur svör komu fram, til dæmis fengu geimverur atkvæði.
Þegar rýnt er betur í svörin er ekki mikill munur á skoðunum fólks eftir því hvar það býr en hins vegar skipta pólitískar skoðanir meira máli hvað það varðar. Kjósendur þjóðernisflokksins Alternative für Deutschland (AfD) eru flestir, eða 58%, þeirrar skoðunar að leynileg öfl stýri heiminum. Kjósendur Græningja og vinstri flokksins Die Link eru ekki eins sannfærðir en um fimmtungur þeirra sagðist telja að leynileg öfl stýri heiminum.
Menntun skiptir einnig máli. Þeim mun meiri menntun, þeim mun minni líkur á að fólk telji að leynileg öfl stýri heiminum. Þeir svarendur sem aðhyllast kenninguna um að leynileg öfl stýri heiminum nota almennt ekki þýska ríkisfjölmiðla og telja þá ótrúverðuga.