Í gær var tilkynnt að enginn lögreglumaður verði ákærður beint fyrir drápið en einn, Brett Hankison, verður ákærður fyrir tilefnislausa valdbeitingu með því að hafa hleypt af skotum inn í aðrar íbúðir í fjölbýlishúsinu sem Taylor bjó í. Hann á allt að fimm ára fangelsi yfir höfði sér fyrir hvert brot en þau eru samtals þrjú. Daniel Cameron, dómsmálaráðherra Kentucky, sagði í gær að rannsókn hefði leitt í ljóst að valdbeiting tveggja annarra lögreglumanna hefði verið í samræmi við reglur. Tilkynningin vakti reiði margra og safnaðist fólk saman til að mótmæla. Nokkrir voru handteknir í átökum við lögreglu.
Robert Schroeder, lögreglustjóri í borginni, sagði á fréttamannafundi að tveir lögreglumenn hefðu verið skotnir í miðborginni þegar þeir brugðust við tilkynningum um skothvelli. Hann sagði að þeir hefðu báðir verið fluttir á sjúkrahús og væri ástand þeirra „stöðugt“. Hann sagði að einn hefði verið handtekinn vegna málsins.
Óeirðarlögregla og þjóðarvarðlið hafa tekist á við mótmælendur í borginni í nótt og hafa notað brynvarin ökutæki frá hernum auk táragass. Sky skýrir frá þessu.