Nýjasta dæmið um samsæriskenningar, sem hafa náð sér á flug, sem tengjast bandarískum stjórnmálum tengist franskri drama/grínmynd um börn. Myndin nefnist „Cuties“ á ensku og fjallar um hóp barna, sem eru við að ná unglingsaldri, í fátæku úthverfi Parísar. Netflix tók myndina til sýninga. Óhætt er að segja að myndin hafi hækkað blóðþrýsting marga bandarískra þingmanna.
Ted Cruz, öldungadeildarþingmaður Repúblikana, hefur sent dómsmálaráðuneytinu bréf til að fá úr því skorið hvort myndin brjóti gegn „alríkislögum um framleiðslu og dreifingu barnakláms“. Netflix hafnar þessu og segir myndina vera innlegg í samfélagsumræðuna um að börn séu gerð kynferðisleg.
En þetta hefur ekki dregið mátt úr Cruz sem leynir því ekki að með þessu er hann að leita að pólitískum fórnarlömbum í líki Barack Obama og Michelle Obama, fyrrum forsetahjóna, sem hafa gert margra ára samning við Netflix um þróun dagskrárefnis fyrir efnisveituna.
„Barack Obama þénar gríðarlega mikið á Netflix og þeir græða peninga á að selja kynferðislega misnotkun á börnum,“
sagði Cruz á Fox News.
Allt tengist þetta tilraunum til að sverta áberandi og leiðandi Demókrata og tengja þá við samsæri þar sem barnaníð kemur við sögu. Ein mest áberandi samsæriskenningin í þá veru tengist QAnon samsæriskenningunni sem gengur út á að leynileg samtök valdamanna, í Demókrataflokknum, tengist kerfisbundnu barnaníði og mannáti.
En það eru ekki allir Repúblikana sem aðhyllast þessa kenningu.
„Aanon er hættuleg klikkun sem á ekki að leika neitt hlutverk í bandarískum stjórnmálum,“
sagði Liz Cheney einn leiðtoga flokksins á þinginu nýlega í samtali við Politico.