Samkvæmt frétt ITV þá fundust bækurnar við leit í húsi í Neamt. Meðal þeirra eru bækur eftir Galileo, Sir Isaac Newton og Francisco Goya. Heildarverðmæti þeirra er um 2,5 milljónir punda og þær eru taldar mjög mikilvægar út frá menningarlegum sjónarhóli og óbætanlegar.
Lundúnalögreglan rannsakaði þjófnaðinn í samstarfi við lögreglu á Ítalíu og í Rúmeníu auk Europol og Eurojust. Böndin beindust að skipulögðum rúmenskum glæpasamtökum (OCG) sem stóðu á bak við fjölda álíka innbrota í vöruhús í Bretlandi.
OCG sendir félaga sína til Bretlands til að fremja innbrot og að þeim loknum halda þeir strax úr landi. Aðrir félagar í samtökunum sjá síðan um að koma þýfinu úr landi eftir margvíslegum leiðum.
OCG tengist mörgum þekktum rúmenskum fjölskyldum sem mynda hluta Clamparu glæpahópsins sem heldur til í austurhluta Rúmeníu og á sér langa sögu flókinna og vel útfærðra þjófnaða. Meðlimir samtakanna hafa aðallega verið sóttir til saka í löndum utan Rúmeníu.