Sagan snart að vonum viðkvæma strengi í fólki. Tania hafði náð að komast út en unnusti hennar, Dave, sem hún var trúlofuð var ekki svo heppinn.
Hún sagðist hafa mætt snemma til vinnu hjá Merrill Lynch á 78. hæð hússins. Síðan hafi hún séð flugvélina stefna beint á turninn klukkan 09.03. Flugvélin kom að sögn svo nærri henni að hún fann loftið sogast úr lungum sér. Hún lifði af fyrir eitthvað kraftaverk þegar flugvélin lenti á hæð hennar og breytti öllu í eldhaf á örskotsstund.
Tania sagðist hafa misst meðvitund en þegar hún vaknaði hafi hún fundið að líkami hennar logaði. Hægri handleggurinn hékk máttlaus niður og var mölbrotinn. Hún vissi að hún varð að skríða niður og út. Á leiðinni að stiganum rakst hún á deyjandi mann sem rétti henni giftingarhring sinn og bað hana um að koma honum til eiginkonu sinnar.
Hún sagðist hafa staulast, illa særð, niður stigann og það sem veitti henni styrk til að halda áfram hafi verið tilhugsunin um Dave og að þau ætluðu að giftast. Hún vildi ekki enda lífið í þessari ringulreið. Í stiganum mætti hún manni með rauðan hálsklút. Þetta var Welles Crowther sem varð síðar þekktur sem „hetjan með rauða hálsklútinn“ en hann hjálpaði 12 manns niður stigann en komst ekki sjálfur lifandi frá hildarleiknum. Hann hjálpaði Tania einnig.
Fyrir kraftaverk náði Tania að komast út áður en byggingin hrundi til grunna. Saga hennar var kraftaverki líkust. Aðeins 19 þeirra, sem voru nærri eða fyrir ofan staðinn þar sem flugvélarnar lentu á byggingunum, komust lífs af.
Hún var mikið slösuð og vaknaði ekki upp af meðvitundarleysi sínu fyrr en sex dögum síðar, þá á brunadeild sjúkrahúss. Þar voru henni færðar hinar skelfilegu fréttir: Dave, sem hafði verið í nyrðri byggingunni, hafði ekki komist út.
Næstu sex árin sagði Tania sögu sína. Um kraftaverkið að hún skyldi komast út, að hafa vaknað upp sex dögum síðar og fengið að vita að ástin hennar eina hafði ekki komist út.
En eitthvað passaði ekki í söguna og sex árum eftir hryðjuverkaárásirnar grófur blaðamenn sannleikann um sögu Tania upp. Þrátt fyrir að hún gæti lýst því vel þegar flugvélinni var flogið á bygginguna og lýst því í smáatriðum hvernig eldurinn nánast át húð hennar var eitthvað sem var ekki eins og það átti að vera.
Hafði hún yfirhöfuð hitt manninn með rauða hálsklútinn? Var hún í syðri turninum að morgni 11. september? Var hún í New York þegar árásirnar voru gerðar?
Í ljós kom að Tania hafði ekki hitt manninn með rauða hálsklútinn og að hún hafði ekki verið trúlofuð Dave. Hún hafði heldur ekki verið í syðri byggingunni og hvað þá í New York þennan dag. Hún var í Barcelona þennan dag og sat á skólabekk þegar flugvélunum var flogið á byggingarnar. Einnig kom í ljós að hún heitir ekki Tania heldur Alicia Esteve Head og var af efnaðri spænskri fjölskyldu komin.
Hana hafði alltaf dreymt um að öðlast frægð og sá tækifæri til þess eftir hryðjuverkaárásirnar. Hún skáldaði því þessar sögur og sagði öllum sem heyra vildu. Hún ræddi við fjölmiðla og kom fram í skólum og stofnunum til að segja frá þessum miklu hörmungum.
Hún varð forseti World Trade Center Survivor‘s Network þar sem þeir sem lifðu af og ættingjar þeirra sem létust sóttu stuðning, ráð og aðstoð.
Í þau sex ár, sem hún komst upp með lygina, heimsótti hún Ground Zero árlega ásamt Michael Bloomberg og Rudolph Giuliani sem báðir gegndu embætti borgarstjóra á þessum árum. Hún lagði blómsveig á Ground Zero og sagði öllum sem heyra vildu sögu sína. Enginn spurði neins, til dæmis ekki hvaða sjúkrahús hún hafði verið lögð inn á eða hvaða fólki hún hefði mætt á leiðinni út úr eldhafinu.
Það var ekki fyrr en blaðamenn New York Times vildu taka viðtal við Tania 2007 að upp um lygarnar komst. Hún hafði alltaf sagt að hún hefði stundað nám í Stanford og Harvard. Þar var nafn hennar hvergi að finna á skrám. Hún sagðist einnig hafa starfað hjá Merril Lynch en þar á bæ hafði aldrei nein kona að nafni Tania starfað. Þetta vakti að vonum athygli blaðamannanna sem urðu ákafari í að ræða við Tania en hún aflýsti þremur fyrirhuguðum viðtölum og að lokum vildi hún ekkert við þá ræða.
Blaðamennirnir báðu stuðningshópinn, sem Tania gegndi formennsku í, um að staðfesta sögu hennar. Þegar farið var að kanna söguna nánar áttuðu félagar í samtökunum sig á lygum hennar. Henni var vikið úr formannsstóli í lok september 2007. Hún flúði frá New York og sneri aldrei aftur. Hún notast nú við sitt rétta nafn, Alicia Esteve Head, og býr í Barcelona.
Saga hennar var viðfangsefni heimildamyndarinnar „The Woman Who Wasn‘t There“ frá 2012.