Vísindamenn uppgötvuðu nýlega, í fyrsta sinn, plánetu á braut um hvítan dverg að því er segir í fréttatilkynningu frá Cornell háskólanum í Bandaríkjunum. Plánetan er gaspláneta á stærð við Júpíter og hefur hún fengið nafnið WD 1856 b.
Í fréttatilkynningu frá bandarísku geimferðastofnuninni NASA er haft eftir Andrew Vandenburg, lektor í stjörnufræði við University of Wisconsin-Madison, að þegar hvítir dvergar verða til eyðileggist nærliggjandi plánetur og allt sem komi of nálægt tætist yfirleitt í sundur vegna gríðarlegs þyngdarafls hvítu dverganna. Enn sé mörgum spurningum ósvarað um hvernig WD 1856 b hafi komist á núverandi stað án þess að mæta þessum örlögum.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu Nature.
Í fréttatilkynningunni frá Cornell segir að þessi uppgötvun veki vonir um að í framtíðinni verði hugsanlega hægt að fá á hreint hvort líf geti lifað af að stjarnan hrynji saman og verði að hvítum dverg.