Þjófnaðirnir hófust í byrjun mánaðarins þegar flutningabíl var ekið upp að verksmiðju Blue Falls Manufacturing í Thorsby í Alberta. Þar eru framleiddir heitir pottar. Ökumaður flutningabílsins afhenti skjöl varðandi heita potta og sagðist eiga að sækja sjö heita potta sem voru settir í bílinn. Skömmu eftir að hann ók á brott áttuðu starfsmenn Blue Falls Manufacturing sig á að þeir höfðu verið blekktir og pottunum stolið.
Nokkrum dögum áður hafði flutningabíll komið að kjötframleiðslufyrirtæki í Brooks í Alberta og sótt nokkur hundruð kíló af nautakjöti. Sömu aðferð var beitt þar.
Lögreglan telur að sömu aðilar hafi verið að verka því sama aðferðin var notuð á báðum stöðum og ökumennirnir sögðust vera frá sama flutningafyrirtækinu.
Blue Falls Manufacturing skrifaði á Facebook að eftir viðræður við lögregluna sé ekki annað að sjá en hér sé um vel skipulagða þjófnaði að ræða. Hér sé um atvinnumenn að ræða sem hafi líklega stundað svipaða iðju víða um landið.