Bandarískir fjölmiðlar hafa að undanförnu fjallað um fyrirætlanir Írana um að myrða sendiherra Bandaríkjanna í Suður-Afríku áður en forsetakosningarnar í Bandaríkjunum fara fram 3. nóvember. Hafa fjölmiðlarnir vísað í ónafngreinda heimildarmenn.
Trump tjáði sig um þetta á Twitter á mánudaginn og sagði að sérhverri árás frá Íran yrði svarað af miklum krafti.
„Sérhverri árás frá Íran, í hvaða formi sem er, gegn Bandaríkjunum verður svarað með mörg þúsund sinnum öflugri árás á Íran,“
skrifaði hann á Twitter.
Samband Bandaríkjanna og Íran hefur verið slæmt síðan klerkastjórnin komst til valda og versnaði enn frekar þegar Trump dró Bandaríkin út úr alþjóðlegum samningi við Íran um kjarnorkumál þeirra fyrir tveimur árum.
Í byrjun janúar á síðasta ári drápu Bandaríkjamenn Soleimani í flugskeytaárás í Bagdad í Írak og reyna nú að fá þjóðir heims til að framlengja vopnasölubann á Íran en það byrjar að renna út í áföngum í október.