Lindome er sunnan við Gautaborg. Á undanförnum vikum hafa margir íbúar bæjarins lent í því að eggjum hefur verið makað á bíla þeirra. Af þeim sökum ákvað Linda Dahlin, kaupmaður í bænum, að grípa til þess ráðs að setja aldurstakmark við kaup á eggjum.
„Okkur er annt um nærumhverfið okkar – þess vegna seljum við í augnablikinu bara egg til þeirra sem eru orðnir 18 ára,“
stendur nú á miða í versluninni. Newsner skýrir frá.
„Það eru unglingahópar sem kaupa egg og við teljum ekki að þau ætli að nota þau í eldamennsku eins og við vildum gjarnan,“
sagði Dahlin í samtali við Newsner. Hún sagðist vona til að ákvörðun hennar verði til þess að fólk ræði við börn sín um það sem hefur verið að gerast í nærumhverfinu að undanförnu. Hún sagði viðskiptavini hafa sýnt framtakinu góðan stuðning og skilning.