Þetta segir egypska ferðamanna- og fornminjaráðuneytið að sögn CNN. Fram kemur að fornleifafræðingar hafi fundið kisturnar í Sawwara, sem er um 30 km sunnan við höfuðborgina Kaíró. Þar er meðal annars elsti pýramídi heims.
Khaled El-Enany, ráðherra ferðamanna- og fornminjamála, sagði á Twitter að það „væri ólýsanleg tilfinning að verða vitni að nýjum fornleifauppgötvunum“.
Aðeins eru nokkrar vikur síðan stjórnvöld opnuðu aftur fyrir aðgengi að fornminjum í landinu en gripið var til lokana í mars vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Ferðamannaiðnaðurinn er mjög mikilvægur fyrir egypskt efnahagslíf en á síðasta ári komu 13,6 milljónir ferðamanna til landsins. Um ein milljón heimamanna starfar við ferðamannaiðnaðinn.