Lyfjafyrirtæki um allan heim keppast nú við að þróa bóluefni gegn veirunni og því fara sjónir margra nú að beinast að dreifingu þess en ljóst er að um gríðarlega stórt verkefni er að ræða.
„Að koma COVID-19 bóluefni á áfangastað verður verkefni aldarinnar fyrir fraktflugvélaiðnaðinn,“
segir Alexandre de Juniac, forstjóri IATA, í tilkynningu. Hann hvatti ríkisstjórnir heims til að taka forystu í skipulagningu og uppbyggingu nauðsynlegrar aðstöðu fyrir þetta stóra verkefni til að tryggja að dreifing bóluefnisins gangi vel.
Nú er verið að gera tilraunir með 29 bóluefni á fólki um allan heim. Þegar búið verður að samþykkja bóluefni til notkunar hefst framleiðsla þess í miklu magni en ef skipulagningin verður ekki góð verður ekki hægt að flytja það um allan heim með flugi.
IATA hefur áhyggjur af að ekki sé nóg af hitastýrðum geymslum og búnaði og að skortur verði á þjálfuðu starfsfólki. Auk þess séu ferðatakmarkanir í gildi víða og það verði að slaka á þeim. Hraða verði útgáfu flugleyfa fyrir flugvélar sem flytja bóluefni og flugáhafnir verði að vera undanþegnar sóttkví til að hægt sé að halda flutningum áfram. Samtökin hafa einnig áhyggjur af öryggismálum því bóluefnið verður mjög dýrmætt. Því þurfi að tryggja vel öll öryggismál tengdum þeim og flutningum á því, bæði hvað varðar þjófnaði og svik.