Khashoggi var myrtur í sádi-arabíska konsúlatinu í Istanbúl í október 2018 eftir skipun bin Salman að því að talið er. Khashoggi var gagnrýninn á stjórnvöld í heimalandi sínu, þar á meðal krónprinsinn, og galt fyrir það með lífi sínu.
„Ég bjargaði honum. Ég fékk þingið til að láta hann í friði. Ég fékk það til að hætta,“
er haft eftir Trump í bókinni.
„Hann mun alltaf segja að hann hafi ekki gert þetta. Hann segir öllum það og í hreinskilni sagt er ég ánægður með að hann segi það. Hann mun segja þetta við þig, hann mun segja þetta við þingið og hann mun segja þetta við alla. Hann mun aldrei játa að hafa gert þetta,“
bætti Trump við.
Morðið á Khasoggi, sem var búsettur í Bandaríkjunum, reitti bandaríska stjórnmálamenn til reiði. En stjórn Trump stóð fast við bakið á stjórnvöldum í Sádi-Arabíu og heimilaði meðal annars vopnasölu fyrir 8 milljarða dollara til landsins án þess að þingið fjallaði um hana.