Dánartíðni, miðað við fjölda íbúa, er nú hærri í Bandaríkjunum en í Frakklandi og á svipuðu róli og á Ítalíu. Útlitið er ekki bjart næstu mánuði sagði Christopher Murray, hjá Institute for Health Metrics and Evaluation (IHME) nýlega á ráðstefnu.
„Það eru dimmir tímar framundan með vetrinum á norðurhveli og því miður gerum við ekki öll allt það sem við getum til að læra af reynslu síðustu fimm mánaða,“
sagði hann. IHME stendur á bak við mest notuðu spálíkönin um þróun heimsfaraldursins.
Murray sagði að IHME vænti þess að 410.000 Bandaríkjamenn látist af völdum veirunnar á þessu ári.
Faraldurinn hefur verið bandaríska heilbrigðiskerfinu erfiður sem og stjórnmálamönnum og stjórnsýslunni. Donald Trump, forseti, og margir ríkisstjórar hafa tapað fylgi frá upphafi faraldursins en einna mest tap á trausti almennings hefur CDC, sem stýrir heilbrigðismálum landsins, orðið fyrir. Í mars höfðu 86% landsmanna trú á stofnuninni en nú er hlutfallið komið niður í 54% samkvæmt könnun CBS-sjónvarpsstöðvarinnar.