Siberian Times skýrir frá þessu. Fram kemur að vísindamennirnir telji að um sprengingu neðanjarðar hafi verið að ræða en ekki að loftsteinn hafi skollið til jarðar. Stórir steinar og ísblokkir skutust mörg hundruð metra frá gígnum við sprenginguna.
Ástæðu sprengingarinnar er að finna djúpt niðri í sífreranum sem er undir stórum hluta Síberíu. Samkvæmt fréttum rússneskra fjölmiðla þá hefur holrými myndast undir yfirborðinu og það fyllst af gasi. Síðan hefur orðið svo mikill þrýstingur að yfirborð hefur þanist út og að lokum varð sprenging.
Gígar sem þessir myndast venjulega á afskekktum og óbyggðum svæðum og því er sjaldgæft að eftir því sé tekið að sprengingar verði. Það eru yfirleitt tilviljanir sem valda því að gígarnir uppgötvast.