Í síðustu viku birtu samtök veitingastaða í New York niðurstöður nýrrar könnunar sem var gerð meðal rúmlega 1.000 veitingamanna um allt ríkið. Tæplega 64% þeirra sögðu líklegt eða hugsanlegt að þeir verði að hætta rekstri fyrir árslok ef þeir fá ekki fjárhagsaðstoð. Um 55% þeirra, sem telja líklegt að þeir þurfi að hætta starfsemi, reikna með að loka fyrir lok október.
Aðeins 36% sögðust reikna með að vera enn í rekstri í janúar.
Verst hefur ástandið verið í New York City. Andrew Cuomo, ríkisstjóri, hefur staðið fast á banni við að gestir veitingastaða í borginni megi sitja innandyra til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar. Hann hefur leyft veitingastöðum í fimm hverfum að hafa takmarkaðan fjölda gesta innandyra.