BBC segir að í síðasta mánuði hafi innanlandsflug um kínverska flugvelli verið 86% af því sem það var fyrir heimsfaraldurinn. Miðað við bókanir frá miðjum ágúst og fram í miðjan september bendir flest til að hlutfallið verði komið í 98% miðað við sama tíma á síðasta ári.
Það er ForwardKeys sem tók tölurnar saman en fyrirtækið safnar upplýsingum um ferðamannaiðnaðinn um allan heim.
Tölurnar frá Kína vekja athygli og vonir víða um heim um að flugfélög geti náð sér á strik á nýjan leik. Það er þó spurning hvort flugfélög í öðrum löndum þurfi að fara sömu leið og þau kínversku og leggja áherslu á að selja ódýra flugmiða til að fá fólk til að fljúga á nýjan leik.