Judd Deere, talsmaður Hvíta hússins, sagði í yfirlýsingu að Bandaríkin vilji ekki láta spillt Kína og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina WHO stjórna sínum málum. Þess í stað muni Bandaríkin einbeita sér að samstarfi við bandamenn sína á alþjóðavettvangi til að hemja útbreiðslu kórónuveirunnar.
WHO hefur í samstarfi við GAVI-sjóðinn, sem Bill og Melinda Gates standa á bak við, komið á samstarfi um þróun bóluefnis sem flestir jarðarbúar eiga að geta fengið aðgang að. Samstarfið gengur undir nafninu „COVID-19 Vaccines Global Access“ (Covax).
Washington Post segist hafa heimildir fyrir að margir í ríkisstjórn Donald Trump hafi viljað taka þátt í samstarfinu. Í því taka þátt ríki sem eru bandamenn Bandaríkjanna, þar á meðal ESB og Japan, en Hvíta húsið hefur tekið þá afstöðu að það vilji ekki neitt samstarf við WHO. Trump hefur sagt að stofnunin sé nánast í vasa Kínverja í baráttunni gegn kórónuveirunni.
En Bandaríkin taka ákveðna áhættu með að taka ekki þátt í Covax því þau munu þá ekki hafa aðgang að því rannsóknarstarfi sem er unnið á alþjóðavísu undir merkjum Covax.
Washington Post hefur eftir Lawrence Gostin, prófessor í alþjóðaheilbrigðismálum við Georgetown háskólann í Washington, að Bandaríkin taki mikla áhættu með þessu og verði nú að treysta á eigin tvíhliða samninga um bóluefni.
Blaðið hefur eftir heimildarmönnum í stjórnkerfinu að stjórnvöld telji að nægilega mörg bóluefni séu í þróun í Bandaríkjunum til að landið geti fullnægt eigin þörf fyrir bóluefni.