Aukin spenna hefur færst í samskipti ríkjanna á undanförnum mánuðum vegna deilna um viðskipti og heimsfaraldur kórónuveirunnar.
Cheng Lei hefur starfað fyrir kínversku ríkissjónvarpsstöðina CTGN í Kína undanfarin átta ár. Stöðin sendir út á ensku.
Ástralski miðillinn ABC segir að heimilt sé að halda henni „undir eftirliti á ákveðnum stað“ í sex mánuði án þess að hún eigi rétt á aðstoð lögmanna.
Í tilkynningu frá áströlsku ríkisstjórninni segir að kínversk stjórnvöld hafi tilkynnt formlega um málið þann 14. ágúst. Þann 27. ágúst funduðu áströlsk yfirvöld með Cheng Lei í gegnum samskiptaforrit og munu áfram veita henni og fjölskyldu hennar þann stuðning sem þau geta veitt.
Síðu hennar og fréttum hefur verið eytt af heimasíðu CTGN. Hún hefur aðallega fjallað um viðskipti og verið umsjónarmaður þáttarins „Global Business“. Börnin hennar tvö eru nú í umsjá ættingja í Melbourne.
Hún er ekki fyrsti ástralski ríkisborgarinn sem er handtekinn í Kína. Frá því í janúar 2019 hefur kínversk-ástralski rithöfundurinn Ynag Hengjung verið í haldi vegna gruns um njósnir. Hann var einn áhrifamesti pólitíski bloggari landsins. Hann var áður stjórnarerindreki í Kína og hefur skrifað njósnasögur. Hann hefur verið talsmaður lýðræðislegrar þróunar í Kína og hefur í því sambandi gagnrýnt stjórn kommúnistaflokksins.
Handtaka Cheng kemur á tímum þar sem Ástralir hafa sett fram óskir um alþjóðlega rannsókn á upptökum heimsfaraldurs kórónuveirunnar sem nú geisar.